Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Nýtt bankaráð Landsbankans - Fréttir

18.2.2010

Nýtt bankaráð Landsbankans

Bankasýsla ríkisins hefur skipað þau Gunnar Helga Hálfdanarson, Guðríði Ólafsdóttur, Hauk Halldórsson og Sigríði Hrólfsdóttur sem aðalmenn í bankaráð Landsbankans (NBI hf.). Gunnar Helgi verður stjórnarformaður bankans. Varamenn skipaðir af Bankasýslu ríkisins eru þau Andri Geir Arinbjarnarson, Guðrún Ragnarsdóttir, Loftur Árnason og Þórdís Ingadóttir.

Tók nýtt bankaráð við á aðalfundi bankans fyrir árið 2008 sem haldinn var í dag.

Bankasýslan fer með 81,3% eignarhlut ríkisins í Landsbanka og skipar fjóra stjórnarmenn af fimm. Skilanefnd Landsbankans, sem fer með 18,7% eignarhlut í Landsbankanum, skipar fimmta stjórnarmanninn.

Rætt hefur verið innan Bankasýslunnar hvort rétt geti verið að fjölga fulltrúum í bankaráð Landsbankans og verður ákvörðun um það tekin fyrir aðalfund ársins 2009 sem haldinn verður í apríl næstkomandi. Markmiðið með slíkri fjölgun væri að styrkja bankaráðið í ljósi þeirra umfangsmiklu og vandasömu verkefna sem framundan eru við uppbyggingu Landsbankans. Þá er einnig til skoðunar hvort leita eigi til erlendra sérfræðingu varðandi stjórnarsetu.

„Ég fagna því að nýtt bankaráð Landsbankans hafi verið skipað. Bankaráðinu bíður mikið starf við enduruppbyggingu bankans en eitt fyrsta verkefni ráðsins verður að auglýsa eftir og ráða nýjan bankastjóra. Þeir tveir karlar og tvær konur sem Bankasýslan skipar í ráðið eru valin úr stórum hópi hæfileikafólks og ánægjulegt að sjá hversu margir vilja leggja sitt af mörkum við endurreisn íslensks fjármálalífs. Við leggjum mikið upp úr jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum og viljum sjá þau sjónarmið ráða ferðinni þegar stjórnarmenn dótturfyrirtækja bankans verða valdir,“ segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins.

Fulltrúar Bankasýslunnar eru lögum samkvæmt tilnefndir samkvæmt tillögum um stjórnarmenn frá valnefnd Bankasýslunnar. Valnefndinni hafa á síðustu mánuðum borist um 300 ábendingar um mögulega stjórnarmenn.

Samkvæmt starfsreglum valnefndar ber henni við mat á hæfni aðila að taka mið af yfirsýn, þekkingu og reynslu viðkomandi í tengslum við fyrirtækjarekstur og starfshætti fjármálafyrirtækja. Nefndin skal huga að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig og tilnefna stjórnarmenn sem hafa fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og hæfni.

Valnefndin þarf í tilnefningum sínum að huga að samsetningu stjórna fjármálafyrirtækja sem og hæfni þeirra stjórnarmanna sem fyrir eru. Þannig verði gætt að heildaryfirbragði og reynt að tryggja að stjórnir fjármálafyrirtækja verði ekki of einsleitar.

Valnefndinni ber að gæta þess í tilnefningum sínum að ekki séu valdir aðilar þar sem möguleiki sé á hagsmunaárekstrum við önnur störf þeirra. Þá ber valnefndinni í tilnefningum sínum að gæta að öðrum mögulegum hagsmunaárekstrum s.s. vegna fjárhags- og/eða skyldleikatengsla.

Þá ber valnefnd að gæta að kynjasjónarmiðum.

Bankasýsla ríkisins er ríkisstofnun sem starfar samkvæmt lögum númer 88/2009. Hún fer með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og skal í starfsemi sinni leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.

Nánar um fulltrúa Bankasýslu ríkisins í bankaráði Landsbankans:

Gunnar Helgi Hálfdanarson er nýr formaður bankaráðs Landsbankans. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í rekstrarhagfræði (MBA) frá McMaster University í Ontario í Kanada. Gunnar Helgi starfaði sem forstjóri Landsbréfa hf frá 1989-1999 og var framkvæmdastjóri sjóðasviðs Landsbanka Íslands frá 1997-1999. Frá árinu 1999-2009 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá AllianceBernstein Investments, með aðsetur í Stokkhólmi og megináherslu á þróun viðskiptasambanda við helstu bankasamstæður Norðurlanda og íslenska lífeyrissjóði.

Guðríður Ólafsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í heimspeki og fjölmiðlafræði frá Háskólanum í Ósló. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og staðgengill forstjóra hjá Lýsingu 1993-2007 og sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Landsbankans frá 2008-2009.

Sigríður Hrólfsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í rekstrarhagfræði (MBA) frá Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hún starfaði við fjárstýringu hjá Íslandsbanka 1994-1998, og hjá Eimskipafélagi Íslands frá 1998-2004, fyrst sem forstöðumaður fjárreiðudeildar og frá 2000 sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Hún var framkvæmdastjóri fjárfestinga- og fjármálasviðs Tryggingamiðstöðvarinnar 2007-2008 og hefur verið framkvæmdastjóri Árvakurs frá 2009.

Haukur Halldórsson er búfræðingur frá Hvanneyri. Hann starfaði um árabil sem bóndi og var formaður Bændasamtaka Íslands frá 1987-1995. Haukur var skipaður varaformaður bankaráðs Landsbankans í nóvember 2008 og hefur starfað sem formaður bankaráðsins frá febrúar 2009.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, í síma 856-5540.