Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Aðalfundur Landsbankans og Íslandsbanka - Fréttir

7.5.2010

Aðalfundur Landsbankans og Íslandsbanka

Landsbankinn og Íslandsbanki héldu aðalfundi í síðustu viku. Bankasýslan fer með 81% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og skipar fjóra stjórnarmenn af fimm. Þá fer Bankasýslan með 5% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og skipar einn stjórnarmann af fimm. Stjórnarmenn Bankasýslu eru skipaðir að tillögu Valnefndar Bankasýslu ríkisins.

Aðalfundur Íslandsbanka

Á aðalfundi Íslandsbanka miðvikudaginn 28. apríl var ákveðið að greiða ekki út arð árið 2010 vegna starfsemi ársins 2009 en hagnaður nam 23,9 milljörðum króna.

Engar breytingar voru gerðar á stjórn Íslandsbanka á fundinum.

Ályktun um starfskjarastefnu

Aðalfundur Íslandsbanka samþykkti svohljóðandi ályktun um starfskjarastefnu:

„Samkvæmt ákvæðum 79. gr. a í lögum um hlutafélög skulu félög, sem skylt er að kjósa sér endurskoðanda skv. 1.–3. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, setja sér starfskjarastefnu. Íslandsbanki uppfyllir þær kröfur.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem hefur að geyma hertar reglur um fjármálamarkaðinn. Í frumvarpinu eru ákvæði sem mæla fyrir um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að setja reglur um kauprétti og kaupaukagreiðslur o.fl.

Aðalfundur Íslandsbanka samþykkir því að fresta setningu nýrrar starfskjarastefnu uns Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur um kauprétti og kaupaukagreiðslur. Tillaga um starfskjarastefnu Íslandsbanka verði þá lögð fyrir hluthafafund.“

Aðalfundur Íslandsbanka samþykkti jafnframt að þóknun til stjórnarmanna skyldi vera óbreytt eða 525 þúsund fyrir formann stjórnar og 350 þúsund fyrir aðalmenn.

Aðalfundur Landsbankans

Á aðalfundi Landsbankans, sem haldinn var föstudaginn 30. apríl, var ákveðið að greiða ekki út arð vegna hagnaðar á árinu 2009. Hagnaði rekstrarársins, sem nam 14,3 milljörðum króna, verður ráðstafað til hækkunar á eigin fé bankans.

Breyting á bankaráði

Á aðalfundinum varð sú breyting á skipan bankaráðs Landsbankans að Haukur Halldórsson gekk úr bankaráði en Þórdís Ingadóttir lögfræðingur, sem setið hefur sem varamaður, tók sæti í bankaráði í hans stað. Þá tók Lárentsínus Kristjánsson sæti í bankaráði sem fulltrúi kröfuhafa Landsbanka Íslands hf.

Þórdís Ingadóttir lauk Cand Juris-prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Hún stundaði framhaldsnám við New York School of Law þar sem hún var Fulbright-styrkþegi. Þaðan lauk hún LLMprófi árið 1998 í International Legal Studies. Frá árinu 2006 hefur hún stundað doktorsnám í lögfræði við Helsinki-háskóla. Þórdís starfaði við lögfræðiráðgjöf fyrir Félag einstæðra foreldra árin 1992-1993 og sem fulltrúi á Lögfræðiskrifstofu Ásgeirs Þórs Árnasonar hrl. og Óskars Magnússonar hrl. árin 1993-1995. Að loknu framhaldsnámi við New York University starfaði hún sem lögfræðingur við skólann frá 1999-2003 (The Project on International Courts and Tribunals (PICT), the Center on International Cooperation). Hún starfaði á lagaskrifstofu Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins árið 2004 og hefur verið dósent við Lagadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2004. Þórdís hefur skrifað fjölda fræðigreina og bókarkafla.

Ný starfskjarastefna Landsbankans

Aðalfundur Landsbankans samþykkti starfskjarastefnu fyrir bankann þar sem lögð er áhersla á að tryggja að starfskjaraumhverfi bankans sé samkeppnishæft en ekki leiðandi í samræmi við lög og eigendastefnu ríkisins.

Í stefnunni kemur m.a. fram að sérstök starfskjaranefnd skuli vera leiðbeinandi fyrir bankaráð og bankastjóra um starfskjör helstu stjórnenda bankans og ráðgefandi um starfskjarastefnu. Nefndin skal skipuð þremur bankaráðsmönnum, tveimur sem bankaráð kýs og fulltrúa kröfuhafa Landsbanka Íslands hf í bankaráði hverju sinni.

Um starfskjör bankaráðsmanna segir að þeim skuli greidd föst mánaðarleg þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert. Þar skuli taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans,þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir og afkomu félagsins. Óheimilt er að gera starfslokasamninga við bankaráðsmenn.

Í starfskjarastefnu bankans segir m.a. um starfskjör bankastjóra að við gerð ráðningarsamnings við bankastjóra skuli haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi. Heimilt sé þó við sérstök skilyrði að mati bankaráðs að gera sérstakan starfsflokasamning við starfslok bankastjóra í samræmi við lög og almenn viðmið sem um það gilda hverju sinni.

Hvað starsfskjör helstu stjórnenda varðar segir í stefnunni að lögð sé áhersla á að laun þeirra skuli standast samanburð við launakjör samkeppnisaðila bankans en ekki vera leiðandi og er það í samræmi við eigendastefnu ríkisins.

Hvað hvatakerfi varðar segir í starfskjarastefnunni:

„Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, sem meðal annars felur í sér að reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja verða hertar. Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem kveða á um að Fjármálaeftirlitið skuli setja reglur varðandi kauprétti og kaupaukagreiðslur.

Í samræmi við samning fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og Landsbankans við kröfuhafa Landsbanka Íslands hf. mun Landsbankinn hefja undirbúning að útfærslu hvatakerfis sem mun ná til allra starfsmanna bankans. Ekki þykir þó rétt að taka upp hvatakerfi fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur um kauprétti og kaupaukagreiðslur. Tillaga um hvatakerfi Landsbankans skal lögð fyrir sérstakan hluthafafund þegar slíkar reglur hafa verið settar og starfskjarastefnu þessari breytt með hliðsjón af því hvatakerfi sem þá verður komið á fót. Fram að því er bankaráði óheimilt að veita stjórnendum eða starfsmönnum bankans kauprétti eða árangurstengdar launagreiðslur.

Hvatakerfi skal ávallt taka til langtíma hagsmuna starfsmanna, eigenda, viðskiptavina og samfélagsins.“

Aðalafundur Landsbankans ákvað að laun bankaráðsmanna skyldu nema 500 þúsund fyrir formann
og 300 þúsund fyrir aðra bankaráðsmenn.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sími: 856 5540