Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Aðalfundur Arion banka hf. - Fréttir

21.5.2010

Aðalfundur Arion banka hf.

Aðalfundur Arion banka fyrir árið 2009 var haldinn 20. maí.

Á aðalfundinum kom fram að hagnaður síðasta árs nam 12,9 milljörðum króna. Ákveðið var að greiða ekki út arð árið 2010 vegna starfsemi ársins 2009.

Breytingar voru gerðar á samþykktum félagsins, en í þeim felst að stjórn skal hafa lokið gerð ársreiknings eigi síðar en tuttugu dögum fyrir aðalfund í stað mánaðar fyrir aðalfund áður og að stjórnarmönnum er fjölgað úr fimm í sex.

Colin C Smith var kjörinn sem sjötti maður í stjórn og jafnframt var Jón G. Briem kjörinn sem sjötti varamaður. Þeir eru báðir tilnefndir af Kaupskilum ehf.

Að öðru leyti er stjórnin óbreytt. Bankasýslan fer með 13% eignarhlut ríkisins í Arion banka og tilnefnir einn stjórnarmann. Stjórnarmenn Bankasýslu eru skipaðir að tillögu Valnefndar Bankasýslu ríkisins.

Á fundinum var samþykkt tillaga stjórnar um starfskjarastefnu fyrir Arion Banka. Þar segir m.a.:

„Meginsjónarmið varðandi kjör starfsmanna er að bankinn sé samkeppnishæfur og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk enda helst árangur í hendur við möguleika bankans til að halda í gott starfsfólk, stjórnendur sem aðra, og laða að nýja starfsmenn. Við mörkun stefnunnar skal m.a. haft í huga að stefna ýti ekki undir óhæfilega áhættutöku heldur hvetji til þess að langtímasjónarmiðum um rekstur bankans verði gætt. Starfskjarastefnan nær til helstu grundvallaratriða í starfs- og launakjörum bankastjóra og stjórnenda bankans. Stefnan er liður í að gæta langtímahagsmuna eigenda bankans, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila með skipulegum og gegnsæjum hætti i samræmi við gildi bankans.“

Þá er í stefnunni kveðið á um störf starfskjaranefndar:

„Starfskjaranefnd stjórnar hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn varðandi starfskjör æðstu stjórnenda og fyrirkomulag á hvatningakerfi bankans og öðrum starfstengdum greiðslum. Jafnframt er gert ráð fyrir að nefndin upplýsi stjórn bankans reglulega um störf sín og geri þær tillögur sem hún telur nauðsynlegar eða viðeigandi.“

Í starfskjarastefnunni er svohljóðandi ákvæði um hvatakerfi:

„Ekki verður um kauprétti eða árangurstengdar launagreiðslur að ræða innan bankans að svo stöddu. Breytingar á því skulu lagðar fyrir hluthafafund til samþykktar.“

Fundurinn ákvað að laun stjórnarformanns verði 700 þúsund krónur á mánuði, laun varaformanns 525 þúsund og laun annarra stjórnarmanna 350 þúsund. Af hálfu Bankasýslu ríkisins var setið hjá við atkvæðagreiðslu um tillöguna.

Endurskoðunarfélag var kosið Ernst & Young hf.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sími: 550-1700 / 856 5540