Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Skýrsla um starfsemi Bankasýslu ríkisins - Fréttir

7.7.2010

Skýrsla um starfsemi Bankasýslu ríkisins

Bankasýslu ríkisins ber lögum samkvæmt að skila árlegri skýrslu um starfsemi sína og liggur nú fyrir skýrsla vegna ársins 2010. Í skýrslunni er greint frá starfsemi Bankasýslunnar frá því að til hennar var stofnað síðastliðið haust en eignarhlutir ríkisins í Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka voru formlega færðir Bankasýslunni til umsýslu 4. janúar 2010.

Sérstaklega er fjallað um starfsemi bankanna í skýrslunni og ársreikninga þeirra vegna ársins 2009.

Þar kemur fram það mat Bankasýslunnar að reikningar bankanna séu ekki vel fallnir til samanburðar þar sem mismunandi aðferðum er beitt við uppgjör og framsetningu og ekki hægt að greina afkomu grunnrekstrar nema með töluverðum tilfæringum.

Þegar reikningar bankanna vegna ársins 2009 eru skoðaðir er ljóst að óreglulegir liðir hafa umtalsverð áhrif á rekstrarniðurstöður þeirra sem stafar m.a. af endurmati á eignasafni sem flutt var frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Eftir að leiðrétt hefur verið fyrir óreglulegum liðum lækkar arðsemi eigin fjár umtalsvert í tilviki Landsbankans og Arion banka og nokkuð hjá Íslandsbanka. Gerð er ítarlega grein fyrir þessu í skýrslunni.

Fjárbinding íslenska ríkisins í bönkunum þremur nemur um 190 milljörðum króna. Fjárframlag vegna hlutafjár nemur rúmlega 135 milljörðum króna og tæpum 55 milljörðum króna vegna víkjandi lána.

Lágmarksarðsemiskrafa ríkisins tekur mið af fjármagnskostnaði að viðbættu álagi. Í skýrslunni er umfjöllun um grundvöllinn að baki arðsemiskröfu ríkisins sem hluthafa og kemur fram að eðlileg arðsemiskrafa fyrir banka í blönduðum rekstri geti talist vera rétt rúmlega 15%.

Skýrsluna má nálgast á PDF-formi á heimasíðu Bankasýslunnar, www.bankasysla.is.

Nánari upplýsingar veitir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins í síma 8565540