Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Afstaða stjórnar Bankasýslu ríkisins til launaákvarðana stjórna Arion banka og Íslandsbanka. - Fréttir

21.3.2011

Afstaða stjórnar Bankasýslu ríkisins til launaákvarðana stjórna Arion banka og Íslandsbanka.

Stjórn Bankasýslu ríkisins (BR) hefur tekið til umfjöllunar ákvarðanir um laun forstjóra Arion banka og Íslandsbanka og hefur í því sambandi óskað eftir og fengið greinargerðir stjórnarmanna BR í bönkunum um atkvæðagreiðslu þeirra og grundvöll ákvörðunar við ákvörðun launa forstjóra bankanna á síðasta ári.
Í eigandastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir eftirfarandi um launakjör:

Kjararáð ákveður laun bankastjóra og forstjóra fjármálafyrirtækja sem ríkið á meira en helmingshlut í. Stjórnir bera annars ábyrgð á að starfskjarastefnu sé fylgt og ber þeim að útskýra og réttlæta launaákvarðanir sínar. Í þeim tilvikum sem ríkið á ekki meirihluta gilda almennar reglur og stjórn ákveður launakjör.

Opinber fjármálafyrirtæki skulu tileikna sér hófsemi þegar kemur að launakjörum. Með þessu er átt við að laun stjórnenda eigi að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á, en séu ekki leiðandi.

Stjórn gerir árlega tillögur um framgangskerfi og starfskjarastefnu til hluthafafundar.

Stjórn BR telur að með ákvörðunum stjórnarmanna sem skipaðir eru af BR hafi ekki verið brotið gegn eigandastefnu ríkisins. Einnig telur stjórn BR að ráðningarferlið í Arion banka hafi verið vandað, eins og því er lýst í greinargerð stjórnarmanns. Rétt er þó að taka fram að með þessari ályktun er stjórn BR ekki að tjá sig um þau laun sem ákveðin voru og bendir á að hlutur ríkisins í bönkunum tveimur eru aðeins 5% og 13% og ákvörðun um launakjör því í höndum annarra hluthafa en ríkisins.

Stjórnin telur þó jafnframt að með tilliti til eðlis málsins hefði verið rétt af fulltrúa BR í Arion banka að taka ekki þátt í afgreiðslu þess bæði í ljósi viðkvæmrar stöðu bankanna við endurreisn bankakerfisins, nú þegar stefnt er að því að byggja upp traust og trúverðugleika fjármálafyrirtækja, og viðleitni stjórnvalda til að hafa hemil á launahækkunum hærri launa.

Í ljósi ofangreinds er það niðurstaða stjórnar að rétt sé að endurnýja ekki umboð stjórnarmanns BR í Arion banka á aðalfundi bankans sem haldinn verður í þessari viku.

Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Þorsteinsson, formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, sími 891 8913.