Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Aðalfundur Íslandsbanka fyrir árið 2010 - Fréttir

31.3.2011

Aðalfundur Íslandsbanka fyrir árið 2010

Aðalfundur Íslandsbanka hf. fyrir starfsárið 2010 var haldinn þriðjudaginn 29. mars 2011.

Á aðalfundinum kom fram að hagnaður síðasta árs nam 29,4 milljörðum króna. Aðalfundur staðfesti ársreikning félagsins. Ákveðið var að greiða ekki út arð árið 2011 vegna starfsemi ársins 2010.

Tillaga stjórnar um frestun stjórnarkjörs til framhaldsaðalfundar sem haldinn verði þann 4. maí 2011 var samþykkt. Umboð núverandi stjórnar og varamanna var framlengt til sama tíma.

Á fundinum var samþykkt tillaga stjórnar um starfskjarastefnu fyrir Íslandsbanka. Í starfskjarastefnunni segir m.a. :

[Starfskjarastefnan] „byggir á meginreglum um góða stjórnarhætti fyrirtækja og er ætlað að treysta viðleitni bankans til að veita yfirburða þjónustu samfara góðri arðsemi hlutafjár með langtíma hagsmuni félagsins, eigenda þess, viðskiptamanna og starfsmanna að leiðarljósi.
Í samræmi við þessi markmið  er það megininntak starfskjarastefnu bankans að hann bjóði á hverjum tíma samkeppnishæf starfskjör og sambærileg við það sem gerist í starfsumhverfi hans, mælt á hefðbundna mælikvarða um umsvif, ábyrgð og árangur. Á þessum forsendum verði Íslandsbanki eftirsóknarverður starfsvettvangur framúrskarandi starfsmanna.“

Í starfskjarastefnunni er svohljóðandi ákvæði um breytilega kjaraþætti:

Það er stefna stjórnar Íslandsbanka að innleiða árangurstengingu í launakerfi bankans.  Þegar Fjármálaeftirlitið hefur gefið út reglur um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja, í samræmi við 57. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, skal stjórn bankans  gera tillögu að breytingum á starfskjarastefnu bankans með ákvæðum um tengingu launa við árangur í starfi. 
Stjórn er heimilt að samþykkja að greiða hæfilegt endurgjald til  stjórnenda og starfsmanna ef um óvenjulegt vinnuálag hefur verið að ræða.“

Einnig er kveðið á um upplýsingagjöf í starfskjarastefnunni

„Á aðalfundi skal stjórn gera grein fyrir kjörum forstjóra, framkvæmdastjóra og stjórnarmanna. Upplýsa skal um heildarfjárhæð greiddra launa á árinu og launa frá fyrra ári.  Jafnframt skal stjórn bankans gefa skýrslu á aðalfundi um árangur starfskjarastefnu síðasta árs.
Starfskjarastefnu þessa skal birta á heimasíðu bankans“

Af hálfu Bankasýslu ríkisins var setið hjá við atkvæðagreiðslu um starfskjarastefnu.

Fundurinn ákvað að laun stjórnar yrðu óbreytt frá fyrra ári. Af hálfu Bankasýslu ríkisins var setið hjá við atkvæðagreiðslu um tillöguna.

Endurskoðunarfélag var kosið Deloitte hf. til næstu fjögurra ára.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins,
sími: 550-1700/856 5540