Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Aðalfundur Landsbankans fyrir árið 2010 - Fréttir

29.4.2011

Aðalfundur Landsbankans fyrir árið 2010

Aðalfundur Landsbankans fyrir starfsárið 2010 var haldinn 28. apríl 2011.

Á aðalfundinum kom fram að hagnaður síðasta árs nam 27,2 milljörðum króna. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir bankans 1.081 milljarði króna og er bókfært eigið fé í árslok um 185 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var í árslok 19,5%

Aðalfundur staðfesti ársreikning félagsins. Ákveðið var að greiða ekki út arð árið 2011 vegna starfsemi ársins 2010.

Sú breyting var gerð á samþykktum félagsins að lögheiti bankans var breytt úr NBI hf. í Landsbankinn hf.

Bankasýsla ríkisins fer með 81,33% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og tilnefnir fjóra af fimm bankaráðsmönnum. Stjórnarmenn Bankasýslu eru skipaðir að tillögu Valnefndar Bankasýslu ríkisins. Af hálfu Bankasýslu ríkisins voru Helga Loftsdóttir og Kristján Þ. Davíðsson skipuð sem varamenn í bankaráð Landsbankans í stað Guðrúnar Ragnarsdóttur og Lofts Árnasonar sem sögðu sig úr stjórn. Að öðru leyti er bankaráðið óbreytt frá fyrra ári.

Starfskjarastefna fyrir bankann var samþykkt með minniháttar breytingum frá fyrra ári.

Fundurinn ákvað að þóknun stjórnarformanns verði kr. 525.000 á mánuði, varaformanns kr. 425.000 og kr. 350.000 fyrir almenna stjórnarmenn. Varamenn fá greiddar kr. 175.000 fyrir hvern fund, en þó aldrei hærri en þóknun aðalmanna innan hvers mánaðar.

Endurskoðunarfélag var kosið Ríkisendurskoðun.

Af hálfu Bankasýslu ríkisins er vakin athygli á því að í skýrslu stjórnar Landsbankans í ársreikningi vegna starfsársins 2010 kemur fram að stjórnin hefur miklar áhyggjur af því að laun bankastjóra eins og þau eru ákvörðuð af Kjararáði séu ekki samkeppnishæf. Bankasýsla ríkisins tekur undir áhyggjur stjórnar Landsbankans og hefur vakið athygli fjármálaráðuneytisins á málinu. Í eigandastefnu ríkisins segir að laun stjórnenda skuli standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa, án þess að vera leiðandi. Ljóst er að laun bankastjóra Landsbankans standast ekki samanburð á því sviði sem bankinn starfar.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins,
sími: 550-1700/856 5540