Beint á leiğarkerfi vefsins
Fara á forsíğu

Skırsla Bankasıslu ríkisins 2011 - Fréttir

13.7.2011

Skırsla Bankasıslu ríkisins 2011

Bankasýslu ríkisins ber lögum samkvæmt að skila árlegri skýrslu um starfsemi sína og nú liggur fyrir skýrsla ársins 2011. Í skýrslunni er greint frá starfsemi Bankasýslunnar undanfarið ár og fjallað um þau verkefni sem framundan eru.

Bankasýsla ríkisins hóf störf í ársbyrjun 2010 og hefur nú starfað í átján mánuði af áætluðum 5 ára starfstíma stofnunarinnar.

Á árinu 2010 tók stofnunin við til umsýslu eignarhluti í þremur stærstu viðskiptabönkum landsins og fimm sparisjóðum. Fulltrúar hafa verið skipaðir í stjórnir þessara fjármálafyrirtækja og upplýsingagjöf fyrirtækjanna til Bankasýslunnar komið í farveg.

Hár rekstrarkostnaður fjármálafyrirtækja
Bankasýslan hefur lagt áherslu á langtímamarkmið með eignarhaldi sínu og því fylgst náið með stöðu reglulegs rekstrar fjármálafyrirtækjanna. Í skýrslunni er fjallað ítarlega um rekstur viðskiptabankanna þriggja. Meðal þess sem þar kemur fram er:

- Rekstrarafkoma viðskiptabankanna batnaði umtalsvert á milli ára.
- Óreglulegir liðir vega þungt í uppgjörum bankanna.
- Rekstrarkostnaður jókst verulega á árinu 2010 eða um 15%.
- Viðskiptabankarnir eru að stærstum hluta fjármagnaðir með innlánum. Það er brýnt verkefni allra bankanna að undirbúa breytingar á fjármögnun.
- Eiginfjárgrunnur allra bankanna er sterkur eða á bilinu 19 – 27% í lok árs 2010. Bankarnir eru þó allir með hátt hlutfall af lánum sem þarfnast endurskipulagningar og er óvissa um gæði eignasafnsins því enn töluverð.

Í skýrslunni er varað við þeirri tilhneigingu að aðrar leikreglur eigi að gilda um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu en önnur fjármálafyrirtæki. Það dregur úr samkeppnishæfni þeirra og kemur með neikvæðum hætti niður á verðmæti þeirra.

Endurskipulagning sparisjóðakerfisins brýn
Bankasýsla ríkisins tók við stofnfjárhlutum ríkissjóðs í fimm af tíu sparisjóðum landsins í desember 2010 og janúar 2011. Þeir eru Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis.

Ef litið er til síðustu tíu ára hefur arðsemi af reglulegum rekstri sparisjóðanna verið veik. Fjárhagslegri endurskipulagningu er nýlokið og því ekki ljóst hver arðsemi af rekstri endurskipulagðra fyrirtækja muni verða. Erfið rekstrarskilyrði fjármálafyrirtækja almennt og sérstakur vandi sparisjóðanna, sem standa fáir eftir með sameiginlegan rekstur, sem áður var borinn af umtalsvert stærra sparisjóðakerfi, gefa ekki tilefni til bjartsýni.

Að mati Bankasýslunnar er brýnt að taka ákvarðanir um framtíð sparisjóðanna. Minni háttar breytingar kunna að vera ófullnægjandi til að tryggja sjálfbærni sparisjóðanna til lengri tíma.

Sala á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum
Framundan eru stór verkefni og ber þar hæst undirbúningur að hugsanlegri sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Bankasýslunni ber lögum samkvæmt að gera tillögu til fjármálaráðherra um hvort og hvenær slík sala skuli eiga sér stað. Að mörgu ber að huga í þessu sambandi enda mun sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa víðtæk áhrif.

Şað er því ljóst að miklu skiptir að vel takist til við undirbúning og framkvæmd söluáætlunar, sem og annarra verkefna Bankasýslunnar. Af hálfu stofnunarinnar var því lýst yfir þegar á fyrsta starfsári að vegna núverandi og fyrirsjáanlegra verkefna væri nauðsynlegt að fjölga starfsmönnum m.a. til að stofnunin byggi yfir nauðsynlegum þekkingargrunni. Þá yrði stofnunin að geta leitað til utanaðkomandi sérfræðinga þegar þörf kræfi, en í málefnum Bankasýslunnar kann að vera nauðsynlegt að leita til erlendra sérfræðinga vegna tiltekinna verkefna. Uppbygging stofnunarinnar hefði þurft að eiga sér stað á árinu 2010 þar sem verkefni hennar eru aðkallandi, hagsmunir miklir og starfstími takmarkaður. Fjármögnun stofnunarinnar gaf hins vegar ekki svigrúm til þess.

Skýrsluna í heild má nálgast hér á vef Bankasýslu ríkisins, www.bankasysla.is

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sími: 550-1700/856 5540