Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Vinnuferli hæfnisnefndar vegna ráðningar í starf forstjóra Bankasýslu ríkisins - Fréttir

7.12.2011

Vinnuferli hæfnisnefndar vegna ráðningar í starf forstjóra Bankasýslu ríkisins

Hæfnisnefnd vegna ráðningar í starf forstjóra Bankasýslu ríkisins hefur það hlutverk að meta með faglegum hætti hæfni þeirra sem sóttu um starfið og aðstoða þannig stjórn Bankasýslunnar við ákvörðun um ráðningu. Hæfnisnefndin byggir sína vinnu á þeim viðmiðum sem fram komu í auglýsingu um starfið, auk þess að styðjast við gildandi starfsreglur og lög. Helstu vörður í vinnuferli hæfnisnefndar eru sem hér segir:

  1. Vinnuferli, þar sem meðal annars er ákveðið hvernig hver hæfnisþáttur skuli metinn, er mótað af   hæfnisnefnd og samþykkt af stjórn BR.
  2. Hæfnisnefnd gengur úr skugga um að enginn nefndarmanna sé vanhæfur vegna tengsla við umsækjendur.
  3. Fyrsta mat á umsækjendum: Hæfnisnefndarmenn meta umsækjendur með tölulegu mati byggðu á þeim hæfnisþáttum í auglýsingu sem unnt er að meta út frá skriflegum umsóknargögnum. Áfangaskýrsla samþykkt af stjórn áður en næsta skref er stigið.
  4. Annað mat á umsækjendum: Stöðluð og hegðunartengd viðtöl tekin af hæfnisnefnd. Hver og einn nefndarmaður er viðstaddur öll viðtölin og tölulegt mat er framkvæmt sjálfstætt af hverjum nefndarmanni að þeim loknum. Viðtalið byggir á öllum sjö hæfnisþáttunum sem fram komu í auglýsingu, auk spurninga til að meta almennt hæfi, trúverðugleika og hagsmunatengsl. Áfangaskýrsla samþykkt af stjórn.
  5. Þriðja mat á umsækjendum: Viðtöl tekin af hæfnisnefnd og ráðgjafa sem hefur sérþekkingu á kröfum sem FME gerir til hæfis framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálastofnana. Tölulegt mat að loknum viðtölum. Samráð við stjórn ef við á.
  6. Fjórða mat á umsækjendum: Fjórða stig matsins byggir á annars vegar starfstengdu verkefni sem ætlað er að meta hina huglægari þætti hæfniskrafnanna en hins vegar á umsögnum fyrri vinnuveitenda. Hæfnisnefnd skilar í kjölfar þessa mats lokaskýrslu til stjórnar BR, þar sem fram kemur hvaða umsækjendur nefndin telur hæfasta og sú niðurstaða rökstudd út frá ofangreindu mati.
  7. Fimmta mat á umsækjendum: Fundur stjórnar með þeim umsækjendum sem hæfastir teljast, þar sem umsækjendur fá tækifæri til aðkynna sína framtíðarsýn um Bankasýsluna fyrir stjórn og svara spurningum stjórnarmanna.