Beint á leiđarkerfi vefsins
Fara á forsíđu

Nýr forstjóri Bankasýslu ríkisins - Fréttir

30.12.2011

Nýr forstjóri Bankasýslu ríkisins

Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur ráðið Jón Gunnar Jónsson sem nýjan forstjóra Bankasýslunnar. Jón  starfaði hjá fjárfestingarbankanum Merrill Lynch í New York 1992-1996, í Hong Kong 1996-2001 og í London 2001-2008, við útboð og greiningu á skuldabréfum, greiningu á skuldatryggingum, fjármögnun á yfirtökum og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, og sat í stjórn MP banka (EA fjárfestingarfélags) frá 2010-2011, þar sem hann tók þátt í endurskipulagningu bankans. Hann er með LL.M. gráðu í lög- og hagfræði frá Università di Bologna og Universität Hamburg, þar sem hann skrifaði meistararitgerð um fjárhagsskipan banka, og B.S. gráðu frá Cornell University, School of Hotel Administration, í Íþöku, New York fylki.

Ný stjórn Bankasýslu ríkisins var skipuð af fjármálaráðherra 3. nóvember sl. Starf forstjóra Bankasýslu ríkisins var auglýst laust til umsóknar þann 11.11.2011. Umsóknarfrestur rann út 27. nóvember sl. 17 umsóknir bárust en fjórir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka áður en nafnalisti umsækjenda var birtur þann 5. desember sl.

Stjórn Bankasýslu ríkisins skipaði hæfnisnefnd vegna umsóknarferlisins þann 18.11.2011. Nefndin mótaði vinnuferli fyrir mat á umsækjendum sem lagt var fyrir stjórn til samþykktar og hefur verið birt á heimasíðu Bankasýslunnar. Nefndin framkvæmdi í kjölfarið mat á hæfni umsækjenda skv. þessu vinnuferli og var m.a. tekið mið af hæfismati FME fyrir stjórnendur og stjórnarmenn fjármálafyrirtækja. Mat nefndarinnar á þremur hæfustu umsækjendunum var lagt fyrir stjórn Bankasýslunnar sem tók ákvörðun um ráðningu að loknum viðtölum við þá umsækjendur.  

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Ragnarsdóttir, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins í síma 770-4121