Beint á leiđarkerfi vefsins
Fara á forsíđu

Framtíđarstefna Bankasýslu ríkisins - Fréttir

16.3.2012

Framtíđarstefna Bankasýslu ríkisins

Bankasýsla ríkisins hefur lokið mótun framtíðarstefnu og nánari útfærslu á hlutverki stofnunarinnar og starfsáætlun. Niðurstöður stefnumótunarinnar er að finna í skjalinu Framtíðarstefna Bankasýslu ríkisins, sem unnt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar, www.bankasysla.is.

Í stefnumótun sinni hefur Bankasýslan útfært lögbundið hlutverk sitt með þrennum hætti: Eigendahlutverk, endursöluhlutverk og endurreisnarhlutverk.

Stofnunin hefur markað sér stefnu fyrir hvert þessara þriggja hlutverka og er framtíðarsýn stofnunarinnar að endurreisa íslenska fjármálakerfið og að endurheimta traust þess á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, með þjóðfélagslegan ábata að leiðarljósi.

Bankasýslan fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum í samræmi við eigendastefnu ríkisins hverju sinni.  Í árslok 2010 námu fjárhagslegar kröfur ríkisins vegna eiginfjárframlaga til fjármálafyrirtækja um 200 milljörðum króna, sem samsvarar um fimmtungi af heildareignum þess.

Í ljósi þessara miklu fjárhagslegu hagsmuna er mikilvægt að draga úr áhættu ríkisins gagnvart fjármálafyrirtækjum með ábyrgum og faglegum hætti. Það er stefna Bankasýslu ríkisins að standa fyrir opnu og gagnsæju söluferli á eignarhlutum, að hámarka verð eignarhluta og þann arð sem fjárframlög ríkisins til fjármálafyrirtækja gefa hverju sinni, að teknu tilliti til áhættu, og stuðla að sem fjölbreyttustu eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum í framtíðinni.

Stofnunin hefur nú mótað stefnu um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum í samræmi við þá stefnumörkun, er liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar, og lagt mat á kosti og galla beinna og óbeinna aðferða, sem til greina koma  við endurheimtur eignarhluta ríkisins.

Í skjalinu eru kostir og gallar einstakra endurheimtuaðferða ræddir, s.s. skráning á hlutabréfamarkað, sala til erlendra banka, sala til fagfjárfesta, endurskipulagning, sala rekstrar eða sameining við önnur fjármálafyrirtæki, sérstakar arðgreiðslur og útgáfa á skiptanlegum skuldabréfum.

Bankasýsla ríkisins telur hyggilegt, að ráðist verði fyrst í sölu minnstu eignarhluta, sem stofnunin fer með, og síðar í sölu stærri eignarhluta, og þá jafnvel í nokkrum áföngum. Í þessu felst, að gera má ráð fyrir því, að fyrst verði lagt til að ráðist verði í sölu eignarhlutar í Íslandsbanka hf., en þó ekki fyrr en í fyrsta lagi á síðari hluta þessa árs. Stofnunin gerir ekki ráð fyrir að leggja til, að sala eignarhluta í Arion banka hf. og í Landsbankanum hf. geti hafist fyrr en á næsta ári, og að sala í Landsbankanum hf. verði jafnvel framkvæmd í nokkrum áföngum. 

 Í viðauka við skýrsluna er rakið hvernig staðið var að sölu eignarhluta norska ríkisins í fjármálafyrirtækjum frá árinu 1991, en mikilvægt er, að við sölu á eignarhlut íslenska ríkisins í bönkunum verði horft til reynslu annarra þjóða og metið hvaða lærdóm sé unnt að draga af henni og nýta í því ferli, sem framundan er hér á landi.

Nánari upplýsingar veitir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, í síma 550-1701.