Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Aðalfundur Arion banka fyrir starfsárið 2013 - Fréttir

24.3.2014

Aðalfundur Arion banka fyrir starfsárið 2013

Aðalfundur Arion banka fyrir starfsárið 2013 var haldinn þann 20. mars 2014.

Á aðalfundinum kom fram að hagnaður síðasta árs nam 12,7 milljarði króna. Samþykkt var að greiða arð til hluthafa að fjárhæð kr. 7.811.000.000, sem nemur u.þ.b. 60% af hagnaði ársins.

Á fundinum voru eftirfarandi aðilar kosnir í stjórn: Kirstín Þ. Flygenring, sem tekur við af Agnari Kofoed-Hansen sem fulltrúi Bankasýslunnar, Benedikt Olgeirsson, Björgvin Skúli Sigurðsson, Guðrún Johnsen, Måns Höglund, Monica Caneman og Þóra Hallgrímsdóttir, sem eru fulltrúar Kaupskila ehf., sem fer með 87,0% eignarhlut. Varamenn voru kjörnir Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, sem er fulltrúi Bankasýslunnar, Ólafur Örn Svansson og Björg Arnardóttir, sem eru fulltrúar Kaupskila ehf.

Á fundinum var samþykkt að þóknun til stjórnarmanna verði 375.000 á mánuði fyrir almenna stjórnarmenn, 562.500 fyrir varaformann stjórnar og 750.000 fyrir stjórnarformann. Þá fá varamenn 187.500 fyrir hvern setinn fund, þó að hámarki kr. 375.000 á mánuði ef um fleiri en einn fund er að ræða. Í tilviki erlendra stjórnarmanna skulu framangreindar tölur vera tvöfaldar. Þar að auki verði heimilt að greiða þeim stjórnarmönnum sem sitja í stjórnarnefndum félagsins að hámarki kr. 150.000 á mánuði fyrir setu í hverri nefnd og formönnum stjórnarnefnda kr. 195.000 á mánuði. Tillagan var samþykkt með meiri hluta atkvæða. Fulltrúi Bankasýslu ríkisins greiddi atkvæði gegn tillögunni og óskaði eftir að eftirfarandi bókun yrði lögð fram:
Bankasýsla ríkisins sem fer með hlut íslenska ríkisins greiðir atkvæði gegn tillögu um þóknun til stjórnarmanna Arion banka hf. Bankasýslan telur að hækkun sú á þóknun stjórnarmanna sem felst í umræddri tillögu samræmist ekki eigendastefnu ríkisins. Jafnframt ítrekar stofnunin fyrri bókanir um mikilvægi þess að jafnræðis sé gætt á milli stjórnarmanna hvort sem þeir hafa aðsetur á Íslandi eða ekki. Óskar Bankasýsla ríkisins eftir því að framangreint sé bókað í fundargerð aðalfundar.

Starfskjarastefna fyrra árs var samþykkt óbreytt með meiri hluta atkvæða en fulltrúi Bankasýslu ríkisins sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Ernst & Young ehf. voru kosnir endurskoðendur bankans.