Beint á leiđarkerfi vefsins
Fara á forsíđu

Afskipti ráđuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráđuneytis - Fréttir

29.5.2015

Afskipti ráđuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráđuneytis

Í tilefni af frétt sem birtist á mbl.is dags. 28. maí sl. þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hafnar ásökunum um afskipti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytis, áréttar Bankasýsla ríkisins að stofnunin stendur við það sem fram kemur í umsögn stofnunarinnar um afskipti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytis.

 

Lög nr. 88/2009 um Bankasýslu ríkisins gera ráð fyrir því að stofnunin starfi á sjálfstæðan hátt og án afskipta fjármála- og efnahagsráðuneytis, að því undanskildu að ráðherra er í undantekningartilvikum heimilt að beina tilmælum til stjórnar Bankasýslu ríkisins samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna, en þá skal efnahags- og viðskiptanefnd gerð grein fyrir tilmælunum. Ljóst er að þau afskipti ráðuneytisstjórans sem Bankasýsla ríkisins víkur að í umsögn sinni falla ekki undir þau heimilu afskipti sem lög gera ráð fyrir, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 2. gr. laganna.  Þaðan af síður hefði Bankasýslu ríkisins verið heimilt að verða við beiðnum ráðuneytisstjórans að því leyti sem þær fælu í sér óeðlileg afskipti af starfsemi umrædds fjármálafyrirtækis í andstöðu við verkaskiptingu á vettvangi stjórnar þess einkaréttarlega fyrirtækis.

 

Halda verður því til haga að umfjöllun um þetta efni í umsögn Bankasýslu ríkisins er sett fram í tilefni af framkomnu frumvarpi fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem lagt er upp með að komið verði á fót umsýslueiningu félaga í eigu ríkisins innan ráðuneytisins. Viðurkennt er í frumvarpinu að slíku fyrirkomulagi geti fylgt hagsmunaárekstrar milli eigandahlutverks og stefnumótunarhlutverks ráðuneytisins. Til að bregðast við þeim hagsmunaárekstrum segir í athugasemdum með lagafrumvarpinu um umsýslueininguna að hlutverk „slíkrar einingar yrði skýrlega aðgreint frá öðrum hlutverkum ráðuneytisins sem beinast að fjármálafyrirtækjum almennt og með því móti dregið úr mögulegum hagsmunaárekstrum vegna ólíkra hlutverka“.

 

Ţað er í þessu samhengi sem Bankasýsla ríkisins vekur máls á afskiptum ráðuneytisstjórans, enda gefa áðurnefnd afskipti hans til kynna að hætta leiki á því að hann kunni að hlutast til um starfsemi fjármálafyrirtækja með fyrirmælum til undirmanna sinna innan ráðuneytisins verði frumvarpið að lögum. Slíkt gengur gegn þeim grunnröksemdum sem búa að baki núverandi fyrirkomulagi eignaumsýslu, sem eru að ríkið skuli „vera trúverðugur eigandi fjármálafyrirtækja og hlutverk þess hafið yfir vafa um pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum fyrirtækjanna“, sbr. athugasemdir með frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2009.

Nánari upplýsingar veitir Jón G. Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins í síma 550-1700