Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Þátttaka Bankasýslu ríkisins í endurkaupaáætlun Landsbankans - Fréttir

15.9.2016

Þátttaka Bankasýslu ríkisins í endurkaupaáætlun Landsbankans

Bankasýsla ríkisins fagnar ákvörðun Landsbankans hf. um að nýta heimild sem veitt var á aðalfundi bankans til kaupa á eigin hlutum enda samrýmist slík ráðagerð hugmyndum Bankasýslu ríkisins um endurheimtur fjárframlaga ríkisins til bankans.

Þann 1. september 2016 var aflétt sölubanni, sem hvíldi á hlutum í eigu annarra hluthafa Landsbankans en íslenska ríkisins. Þegar bannið var sett var gert ráð fyrir að skráningu hluta í bankanum á skipulegan verðbréfamarkað yrði lokið fyrir þann tíma.

Bankasýsla ríkisins greindi frá því í stöðuskýrslu sinni um fyrirhugaða sölumeðferð á eignarhlutum í Landsbankanum, dags. 8. janúar sl., að tillaga yrði líklegast lögð fram til fjármálaráðherra um sölu á allt að 28,2 % hlut í bankanum með almennu útboði og skráningu hluta á skipulegan verðbréfamarkað. Mikilvægt er að vanda undirbúning að sölumeðferð og að mati Bankasýslu ríkisins væri óheppilegt ef viðskipti með hluti í Landsbankanum færu fram á óskipulagðan og ógagnsæjan hátt, áður en að sölu kemur. Endurkaupaáætlun bankans mun að öllum líkindum verða til þess að slík viðskipti verða umfangsminni en annars hefði orðið.

Bankasýsla ríkisins mun ekki leggja fram tillögu til fjármálaráðherra um sölu vegna fyrsta endurkaupatímabilsins enda liggur fyrir afstaða ráðherra varðandi sölu eignarhluta fyrir kosningar sem boðaðar hafa verið þann 29. október nk.  Bankasýsla ríkisins hyggst hins vegar leggja fram slíka tillögu til ráðherra vegna síðari endurkaupatímabila í samræmi við lög nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Nánari upplýsingar veitir Jón G. Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins.

 Fréttatilkynning frá Landsbankanum