Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Sameining Spkef og Landsbankans - Fréttir

5.3.2011

Sameining Spkef og Landsbankans

Fyrirhugaður samruni Spkef sparisjóðs og Landsbankans sem tilkynnt hefur verið um mun hafa veruleg áhrif á sparisjóðakerfið í heild enda vegur Spkef sparisjóður þungt í heildarefnahag sparisjóðakerfisins.

Bankasýsla ríkisins fer með stofnfjáreign ríkissjóðs í fimm af starfandi sparisjóðum landsins og því ljóst að rík ábyrgð hvílir á Bankasýslunni að taka þátt í stefnumótun varðandi framtíðarfyrirkomulag á starfsemi sparisjóðanna. Í því felst meðal annars að leita leiða til að tryggja áframhaldandi sameiginlega þjónustu sparisjóðanna þannig að sem minnst neikvæð áhrif hafi á rekstur þeirra. Sparisjóðirnir hafa m.a. átt samstarf um upplýsingatæknimál á vettvangi Teris og verður unnið að framtíðarlausn sem tryggir að sparisjóðirnir hafi aðgang að slíkri þjónustu á sem bestum kjörum.

Bankasýslan mun á næstu dögum eiga náið samráð við stjórnendur og stjórnir sparisjóða um hvernig hagsmunum sparisjóðanna verður best borgið í ljósi breyttra aðstæðna.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sími: 550-1700/856 5540