Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Hlutur ríkisins í Sparisjóði Svarfdæla í opið söluferli - Fréttir

12.8.2011

Hlutur ríkisins í Sparisjóði Svarfdæla í opið söluferli

Bankasýsla ríkisins hefur ákveðið að setja 90% hlut ríkisins í Sparisjóði Svarfdæla í opið söluferli. Er sú ákvörðun tekin í samræmi við tillögu stjórnar sparisjóðsins og að fenginni heimild frá fjármálaráðuneyti. Salan er háð samþykki fjármálaráðherra og Fjármálaeftirlitsins. Fyrirkomulag sölu verður kynnt nánar innan skamms. 

Fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Svarfdæla lauk í desember 2010. Samtals nam eftirgjöf skulda hjá Seðlabanka Íslands 343 milljónum króna og jafnframt var kröfu að fjárhæð 382 milljónum króna breytt í stofnfé. Í framhaldi af endurskipulagningunni framseldi Seðlabankinn stofnféð til fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og fer Bankasýsla ríkisins með eignarhaldið.

Sparisjóðurinn er nú rekinn með heimild til undanþágu frá kröfu Fjármálaeftirlitsins (FME) um 16% eiginfjárhlutfall en hlutfall sjóðsins skv. ársreikningi fyrir árið 2010 er 10,5%. Það hefur verið helsta verkefni stjórnar sem kjörin var á aðalfundi sjóðsins hinn 17. maí sl. að leita leiða til að tryggja rekstrargrundvöll sjóðsins til framtíðar.

„Að vel athuguðu máli var það niðurstaða stjórnar sparisjóðsins að farsælast væri fyrir sjóðinn að hlutur ríkisins yrði seldur. Markmið með sölunni er að fá inn sterkan stofnfjáraðila sem leggur sjóðnum til nýtt fjármagn. Kaupandinn mun þannig stuðla að enduruppbyggingu sjóðsins en það er einmitt hlutverk Sparisjóðs Svarfdæla að láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á sínu starfssvæði,” segir Helga Björk Eiríksdóttir, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla.

„Sparisjóður Svarfdæla er fyrsta eign ríkisins í fjármálafyrirtæki sem Bankasýslan setur í opið söluferli. Við væntum þess að vel takist til í þessu söluferli sem framundan er og að sparisjóðurinn standi styrkari fótum að því loknu,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, formaður stjórnar Bankasýslu ríksins

Sparisjóður Svarfdæla á Dalvík hefur verið starfræktur í yfir 120 ár. Sparisjóðurinn varð til í núverandi mynd við sameiningu þriggja sparisjóða árið 1993. Um var að ræða Sparisjóð Svarfdæla, Sparisjóð Hríseyjar og Sparisjóð Árskógsstrandar. Auk sparisjóðsins á Dalvík er í dag rekin afgreiðsla í Hrísey. Sparisjóður Svarfdæla er eina fjármálafyrirtækið með bankaleyfi sem rekið er á Dalvík.

Nánari upplýsingar veitir Bankasýsla ríkisins, sími 550-1700.